Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fépúkar (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Fépúkar
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Margar sögur eru af þeim sem ekki hafa getað skilizt við auðlegð sína ofanjarðar og vitja hennar því eftir dauðann. Allar slíkar afturgöngur heita fépúkar eða maurapúkar þó nú séu einkum nízkir menn nefndir svo er ekki tíma af neinu að sjá, en nurla fé saman með öllu móti. Þess konar afturgöngur eru á ferð á hverri nóttu; telja þeir þá peninga sína og leika sér að þeim á ýmsan veg því áður en þeir dóu hafa þeir komið fé sínu fyrir þar sem þeir geti vitjað þess aftur í næði eftir dauðann, og sannast því á þeim að „þar er allur sem unir“. En það liggur þeim lífið á að vera búnir að ganga frá skildingum sínum og vera komnir í gröf sína áður dagur ljómar; því þeir mega ekki sjá dagsljós heldur en álfar er þeir hafa gleði eða dansa á hátíðanóttum eða nátttröll á næturgöngu, og vilja þeir því allt til vinna og jafnvel láta af hendi peningana sjálfa að komast í holu sína áður en dagar.[1]


  1. Þess hef ég aldrei heyrt getið að fépúkar eigi að verða að steini þó dagur skíni á þá; því þeir láta heldur allt liggja óhirt en að svo fari.