Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skollabrækur, flæðarmús og tilberi (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Skollabrækur, flæðarmús og tilberi
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þeir sem vildu afla sér peninga sem aldrei væri þrot né endir á fengu sér skollabrækur sem og heita Finnabrækur, gjaldbuxur eða nábuxur (nábrók) og Papeyjarbuxur, en þær eru svo undir komnar sem nú skal greina:

Sá sem vill fá sér brækur þessar gjörir samning við einhvern í lifanda lífi er hann þekkir að hann megi nota skinnið af honum þegar hann sé dáinn. Þegar svo er komið fer hinn lifandi á náttarþeli í kirkjugarðinn og grefur hinn dauða upp. Síðan flær hann af honum skinnið allt ofan frá mitti og niður úr gegn og lætur það vera smokk því varast skal hann að gat komi á brókina. Því næst skal hann fara í brókina og verður hún óðar holdgróin, unz manni tekst að koma henni af sér á annan. En áður en brækurnar verði nokkrum að notum verður hann að stela peningi frá bláfátækri ekkju á einhverri hinna þriggja stórhátíða ársins á milli pistils og guðspjalls, aðrir segja daginn eftir að hann hefur farið í þær, og láta hann í pung nábrókarinnar. Eftir það draga brækurnar fé að sér af lifandi mönnum svo aldrei er pungurinn tómur þegar eigandinn leitar í honum, en varast verður þó að taka þaðan peninginn stolna. Sá er annmarki á með Finnabrækur að sá sem á þær getur ekki úr þeim losazt eða skilið þær við sig þegar hann vill, en á því ríður öll andleg velferð hans að hann sé búinn að því áður en hann deyr auk þess sem lík hans úir og grúir allt í lúsum ef hann deyr í þeim. En þess er enginn kostur nema hann fái einhvern til að fara í þær af sér og verður það með því einu móti að hann fari fyrst úr hægri skálminni, en jafnskjótt fari hinn er við þeim tekur, í hana. En þegar hann er í hana kominn getur hann ekki aftur snúið þótt hann vilji, því ef hann ætlar að færa sig úr henni aftur er hann kominn í hina vinstri án þess hann viti hvernig það hafi orðið. Má þá með engu móti losast við þær nema á fyrrsagðan hátt, en náttúru sinni halda Finnabrækur mann af manni og slitna aldrei.

Nöfnin á brókum þessum eru flest auðskilin, t. d. skollabrækur af því að athæfið allt við að útvega sér þær er svo djöfullegt, en þó hef ég einnig heyrt þá sögu að brækurnar séu af Skolla sjálfum og að hann gefi þeim einum þær sem hafa veðdregið sig honum lífs eða liðnir. Finnabrækur heita þær líklega af því að Finnar voru orðlögðustu galdramenn á Norðurlöndum í fornöld. Nöfnin gjaldbuxur og nábuxur eru dregin annað af verknaði brókanna, en hitt af tilbúningi þeirra. En Papeyjarbuxur hef ég heyrt að þær héti af því að í Papey eystra hafi jafnan verið auðmenn mestu að sagt er og hefur það verið ætlun manna að ekki væri einleikið með þann auð og að þeir mundu hafa haft þetta bragð við auðsafn sitt.[1]

Annað bragðalag er og til til að afla sér fjár sem aldrei þrjóti og fylgir því að vísu minni kynngi, en þó nokkur, en það er flæðarmúsin, og fæst hún á þann hátt sem nú segir:

Fyrst tekur maður hár af óspjallaðri mey og ríður net úr því svo smágjört að músin geti ánetjazt í því. Þetta net skal þar leggja sem maður veit af að fé er fyrir á mararbotni því flæðarmúsin á eigi að vera annarstaðar en þar sem silfur er eða gull. Netið þarf ekki að liggja nema eina nótt ef lögnin er rétt valin og er þá músin komin í það að morgni. Nú tekur maður músina og hefur heim með sér. Er hún þá látin þar sem maður ætlar að hafa hana. Segja sumir að hana skuli geyma í hveititunnu, en aðrir í stokk, og gefa henni hveiti að éta, á meyjarhári skal hún og liggja. En svo verður um að búa að ei geti hún sloppið því æ vill hún aftur í sjó. Því næst skal stela peningi og leggja hann í hárið undir músina; dregur hún svo fé úr sjó og svo stóran pening með dægri sem sá er er undir hana var lagður í öndverðu, en þann pening má aldrei taka því þá dregur hún ekki fé framar. Þess skal sá gæta er flæðarmús hefur að vera búinn annaðhvort að koma henni af sér á annan eða til sjávar áður en hann deyr því ef hann gjörir það ekki getur af því hlotizt tjón mikið. Flæðarmúsin fer þá sjálf í sjóinn er maðurinn deyr og verður af því hafrót ógurlegt. Er þá öllum þeim hætt sem á sjó eru. Þá gjörir og veður svo illt og mikið á landi að svo er sem allt ætli um koll að keyra. Eru því flæðarmúsaveður talin háskalegust og mannskæðust allra veðra og heita músarbylur.Ef menn vilja verða auðugir af því að stela mjólk eða ull frá öðrum hafa menn fundið hentugt ráð til þess; en það er með því að hafa tilbera eða snakk.

Tilberi og snakkur[2]er allt eitt; svo er og bæði nefnt „tilberasmér“ og „snakkssmér“. Aftur á móti er það kallað „tilberaverk“ sem illa þykir stofnað eða ankringislega. Tilberi merkir þann sem ber eitthvað til manns, en snakkur þýðir upphaflega vefjarspóla. Er fyrra heitið dregið af verknaðinum, en hið síðara af tilbúningnum. Það segja fróðir fræðimenn að tilberi sé svo undir kominn að kona stelur rifbeini úr dauðum manni í kirkjugarði á hvítasunnumorgun þegar grafið er; vefur hún það síðan í sauðarull grárri eða bandi[3] sem hún stelur annarstaðar; aðrir segja að tilberamæður reyti hý af herðakambi á nýrúinni kind sem ekkja á og vefji þar í rifið svo þetta er að öllu útliti sem ullarvindill og lætur það liggja um hríð á brjóstum sér. Eftir þenna umbúnað fer hún þrisvar til altaris og dreypir í hvert sinn víni því er hún bergir, aðrir segja bæði brauðinu og víninu, á tilberaefnið með því að spýta því út úr sér í barm sér og kjaft tilberanum sem sumir segja að sé einungis á öðrum enda tilberans, en flestir á báðum endum. Hið fyrsta sinn er konan dreypir á tilberann liggur hann grafkyrr, en í annað sinn hreyfist hann og hið þriðja sinn er hún dreypir á hann verður hann fullmagnaður og svo fjörmikill að hann ætlar að spretta fram úr barmi hennar. Má konan gjalda varhuga við að tilberinn ekki sjáist.

Sú hegning er sagt að hafi verið lögð við ef konur urðu uppvísar að því að hafa tilbera að þær voru brenndur með tilberanum á sér eða þeim var drekkt; svo þótti það athæfi illt og óguðlegt. En ekki þóttu órækar sannanir fyrir því nema tilberinn væri eltur upp undir þær og voru pilsin annaðhvort bundin að þeim eða saumuð fyrir neðan tilberann og hvoru tveggja svo fyrirkomið á þann hátt. Þegar tilberinn er orðinn fullmagnaður á þann hátt sem nú var sagt þolir konan hann ekki lengur á brjósti sér; vökvar hún sér þá blóð innan lærs og gjörir þar sepa á og lætur hann sjúga sig þar fastan; þar lifir hann og nærist á blóði konunnar ávallt er hann er heima[4] og á því þekkjast tilberamæður að þær eru haltar og hafa blóðrauða vörtu, líka spena, innanlærs. Þó virðist það og hafa tíðkazt að tilberamæður hafi haft þá í tómum kerum eða tunnum í búrinu, að minnsta kosti stundum. Þegar tilberamóðir á barn og mjólk er í brjóstum hennar ásækir hann hana sjálfa. Liggur þá líf hennar við ef hann nær að sjúga brjóst hennar því hann sýgur hana til dauðs.

Tilberar hafa verið hafðir til þess að láta þá sjúga kýr annara manna, en sumir segja einnig ær úti um haga; koma þeir svo á málum á búrgluggann hjá mömmu sinni á meðan hún skekur strokk sinn. En þær hafa svo um búið að strokkurinn standi, meðan hann er skekinn, rétt undir búrglugganum. Þegar tilberinn kemur á búrgluggann kallar hann inn og segir: „Fullur beli, mamma“ – eða: „af strokkvör (munnagjörðina), mamma.“ Tekur þá konan lokið af strokknum og segir: „Ældu, sonur sæll“ – eða: „gubbaðu í strokkinn, stráki,“ og enn hafa aðrir svo: „Láttu lossa, sonur.“ Ælir hann þá öllu því er hann hefur sogið ofan í strokk mömmu sinnar svo nóg kemur smér í strokk hennar. Smér það er verður af tilberaspýjunni er kallað tilberasmér; er það útlits sem annað smér; en gjöri maður krossmark yfir því eða risti á það kross eða mynd þá er smérhnútur heitir[5] springur það allt í smámola og verður eins og draflakirningur svo ekki sést eftir af því nema agnir einar eða það hjaðnar niður sem froða. Þykir það því varlegra ef manni er boðið óhrjálegt smér að borða eða í gjöld, að gjöra annaðhvort þetta mark á það því tilberasmér þolir hvorki krossmark né smjörhnút.

Það hefur og borið við að tilberar hafa ekki kunnað sér magamál og sogið meira en þeir hafa verið færir um með heim á búrgluggann til mömmu sinnar; spúa þeir þá á miðri leið. Þessa tilberaspýju hafa menn oft þótzt sjá í móum um heiðartíma (þ. e. grasafjallstíma) er hún hvítgul á lit og þykk. Þegar tilberi sýgur málnytupening fer hann svo að því að hann hleypur upp á bakið á honum og vefur sig yfir malirnar á skepnunni; verður hann þá svo langur að hann nær beggja vegna til spenanna og sýgur svo með báðum endum. En þeir sem segja að tilberinn ekki hafi nema einn kjaft segja að hann snúi sér við á mölunum á skepnunni þegar hann sé búinn að þurrsjúga spenana öðrumegin, og taki svo til aftur hinumegin. Oft ber það við að mjólkurkýr og mjólkurær fá illt í júgrið svo að þau stokkbólgna, en skepnan verður nytlaus eftir og þrífst stundum ekki svo það verður að skera hana. Þessi júgurveiki er kölluð undirflog og hefur það verið trú manna að slíkt væri að kenna mjólkursugum tilbera ef það er á kúm.[6] Til varnar við undirflogum er það tíðkað enn sumstaðar að krossa undir júgrið og yfir malirnar á mjaltapeningi og leggja Davíðssaltara yfir hrygginn.”[7]

Til fleira mátti bregða tilberum en til að sjúga málnytupening einungis því þeir voru og hafðir til að stela ull þó þess sé sjaldnar getið. Einu sinni um vor var búið að þvo alla ull sem til var á einum bæ. Þurrkur var góður um daginn og var ullin öll í stórri breiðu á túninu. Um kvöldið leit út fyrir þerrir og gott veður og því var ullin ekki svo mikið sem tekin saman, því síður látin inn. Um morguninn þegar á fætur var komið sýndist eins og ullinni væri eitthvað hróflað til, en þegar farið var að gæta að betur vissu menn ekki fyrri til en, þeim sýndist ullin öll þyrlast saman í einn vindil mikinn og því næst fer allur ullarbingurinn á stað eins og hann var sig til nema litlar dreifar, og var það eitt sem bóndi náði af henni því hinn mikli ullarvindill valt svo hratt áfram að enginn kostur var að fylgja honum og komst brott úr sýn, og var það trú manna að þetta hefði verið tilberi sem hefði vafið um sig ullinni og farið burt með hana.

Þegar tilberamóðir eldist og lýist gengur tilberinn svo nærri henni að hún þolir ekki að láta hann sjúga sig lengur í gegnum lærspenann; sendir hún hann þá upp á fjöll og skipar honum að tína þar saman lambaspörð á þremur afréttum og sprengir hann sig á því; því hann vill allt til vinna að komast sem fyrst heim til mömmu sinnar, en ætlar sér ekki af. Hafa menn talið það til sanninda um sögu þessa að oft hafi fundizt mannsrif við lambasparðahrúgur uppi á afréttum. Tilberar eru ákaflega fljótir og þjóta yfir holt og hæðir. Sýnast þeir ýmist velta eins og hnoða eða ullarvindill ellegar þeir stingast á endum. Dæmi eru sögð til þess að menn hafi riðið þá uppi, en þó varla nema á afbragðs léttum hestum sem nú skal greina.


  1. Ein sögn er það að Mensalder hinn auðgi í Papey hafi haft brækur þessar og því rakað saman ógurlega miklu fé. En þegar hann kom ekki brókunum af sér varð hann að lokunum þungsinna og sturlaður. Er svo mælt einu sinni þegar verið var að búa um hann hafi hann sagt að senn mundi þetta fara af og annað taka við. Nokkrum dögum seinna var hann í góðu veðri að reika út um eyna; gjörði þá fellibyl mikinn, síðan hefur Mensalder ekki sézt. Sbr. Árb. Esp. XI, 103. Frásögnin um Finnabrækur gengur um allt land.
  2. Tilberi heitir hann á Norðurlandi, en snakkur á Vestur- og Suðurlandi, en á Austurlandi hvort tveggja.
  3. Jón Bjarnason í Breiðuvík í Múlasýslu kallar ullar- eða bandvafninginn utan um mannsrifið „snakk“ og kemur það allvel heim við frummerkingu í orðinu snakkur hjá Birni Halldórssyni (Lexicon Islandico-Latino-Danicum, Havniæ 1814) sem getið er hér að ofan.
  4. Jón Bjarnason segir að tilberamæður hafi látið þá liggja utan um holið á sér fyrir neðan brjóstin milli þess þær sendu þá erinda sinna; hins sama er og getið í sögnum úr Skaftafellssýslu.
  5. Smérhnútur er svo í lögun:
    Smérhnútur
  6. Réttnefndara mun undirflog á ám en kúm og er sú ástæða til þess að sumir menn halda að það sé steindeplinum að kenna og geri hann það til hefnda fyrir það ef eggin hans eru ómökuð á vorin að hann fljúgi undir ærnar á þeim bæ á sumrin. Önnur orsök er sú til undirflogs á ám að þær leggist þar sem „óhreint sé“.
  7. Til skamms tíma [þ. e. fram um miðja 19. öld] í Skaftafellssýslu, líklega hinni eystri.