Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfar (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Álfar
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Álfatrúin hefur hvarvetna átt játendur á Íslandi. En þótt hún sé nú að kalla dauð með flestum þeim er trúað hafa tilveru álfa eru þó nokkrar menjar hennar eftir, bæði í sögum þeim sem síðar koma og í nöfnum sem af álfum eru dregin, t. d. álfar, álfafólk, álfakyn, álfatrú, álfkona, auk mýmargra örnefna[1] sem tekið hafa nafn af álfum sem of langt er upp að telja. Þá eru til önnur nöfn um þetta sama kyn, svo sem huldufólk, huldumaður, huldukona o. s. frv. og ljúflingur[2] eða lýflingur; þykja þau nöfn allt mildari og betur hæfa að velja álfum þau er hafa verið álitnir svo voldugar verur að menn hafa bæði borið virðingu fyrir þeim og óttazt þá.

Til þess er og saga sú að álfar vilji láta kalla sig huldufólk, en ekki álfa eða álfafólk að álfkona nokkur kom með reiðisvip til mennskrar konu er atyrti dreng fyrir eitthver ófimlegt athæfi hans og sagði: „álfurinn þinn“, eins og hún kvað að honum; átti þá álfkonan að hafa sagt: „Við huldufólkið erum ekki meiri álfar en þið mennirnir.“ Fyrir því að menn höfðu orðið þess varir að álfum hafði þótt fyrir er þeir voru kallaðir svo eða jafnað til þeirra heimskingjum var það varazt að velja þeim önnur en virðuleg nöfn, og varla þótti það óhætt að kalla þá álfa nema ef engin ill merking var í það lögð.[3] En nú er sá álfur nefndur er hjákátlegur þykir til orðs og æðis og gengur næst því að vera „ekki með öllum mjalla“; æði slíks manns er og kallað álfaskapur eða álfaraskapur, það er og sagt að sá „álpist“ sem gengur antælislega eða klunnalega, hvort sem það er dregið af álfur.

Um bústaði álfa er það að segja að það var trú að þeir ættu híbýli ekki aðeins í hólum og steinum hér og hvar á landi, heldur einnig í sjó (marbendlar) og jafnvel í loftinu. Þessi trú um álfabyggðir í hólum er ævagömul og eldri miklu en kristni kom út hingað sem Ólafs saga Tryggvasonar vottar. Álfar eru í allri mynd og lögun sem mennskir menn eins og Jón Guðmundsson, er kallaður var hinn lærði eða málari, segir um þá í Fjandafælu:

„Hafa þeir bæði heyrn og mál,
hold og blóð með skinni;
vantar ei nema sjálfa sál,
sá er hluturinn minni.“

Fyrra hluta vísu þessarar ætla ég allir sem hafa ritað um álfa muni geta fallizt á, en alls ekki á síðari helming hennar því hann er að ætlun minni fráleitur allri íslenzkri hugmynd um eðli huldufólks. Enda vill svo vel til að sögurnar sjálfar sýna það bezt að skoðun nafna míns er þar ramvillt því eftir þeim virðast álfar alls ekki skyni skroppnir. Hér skal nú getið hins fáa er álfar séu ólíkir mönnum að skapnaði. Dr. Maurer hefur hitt þá sögn um þá að þar sem mennskir menn hafa litla laut á efri vörinni frá miðsnesi ofan í munn með mön hvorumegin, þar er einmitt hæð nokkur á álfum. Purkeyjar-Ólafur er dr. Maurer getur um í formálum fyrir framan „Íslenzku munnmælasögurnar“ sínar og sem hefur ritað allra manna mest um álfa er ég hef séð segir svo í inngangi bókar sinnar um þá: „Ég vil í fáum orðum segja mína þanka og hald um huldufólk eða álfa og þó nokkuð af eigin sjón (ég segi ekki af áþreifing) og so með frásögum staðfesta og upplýsing gefa eftir því ég sannast kann að vita og af ráðvöndum mönnum þar um talað heyrt hef.“ „Það er minn þanki,“ segir hann, „að þeirra (huldumanna) líkamar séu veikara byggðir en vorir líkamar og að það (þeir) hafi lint og mjúkt hold viðkomu, þar með mjórri bein en vér.“[4] Þetta er allt það sem ég hef orðið var við frábrugðið í líkamaskapnaði álfa og manna. Eins og álfar eru líkir mönnum að skapnaði eru þeir og líkir þeim í háttsemi allri: þeir fæðast eins og menn og deyja eins og þeir, en sagt er að álfar séu miklu langlífari. Álfar éta og drekka og skemmta sér með samsætum, dansi og hljóðfæraslætti, en það er helzt um jólaleytið, og hafa þá oft sézt híbýli þeirra ljósum prýdd, en þó einnig endranær, og heyrzt ómurinn af söng þeirra og hljóðfærum.[5] Þá hafa þeir og bústaðaskipti eða halda fardaga.

Álfar hafa búsmala og hafa oft mennskir menn séð hann, kýr og kindur er þeir nytka og er fénaður þeirra allur vænni og betri til mjólkur og frálags en annar fénaður. Þó hefur Purkeyjar-Ólafur getið þess að álfar hafi tvívegis haft hrút bóndans í Arney til ánna sinna, í öðru sinni með leyfi smalans, en í hitt sinnið numið hrútinn burt um veturinn, en skilað honum feitum og framgengnum um vorið. Matseld hafa þeir og alla sem mennskir menn og oft hefur strokkhljóð heyrzt í klettum er þar hefur verið gengið fyrir framan. Þeir stunda og slátt og alla vinnu líkömum sínum til viðurhalds, t. d. tóvinnu, sem Ólafur segir því að bæði hafi menn heyrt rokkhljóð í klettum og hólum og að huldustúlka hafi hitzt er var að prjóna mórauðan sokk svo hvorki séu þeir kaldir eða soltnir. Álfar fara og til fiskifanga og hvalskurðar sem aðrir menn og stunda veiðiskap bæði í sjó og vötnum. Hafa menn þótzt heyra bæði áraglamm, mannamælgi, en ekki orðaskil, og eins skip eða bátur væri settur upp eða ofan og jafnvel skip og báta á siglingu eða undir árum á sjó og vötnum, en þegar af er litið hefur allt horfið. Þegar menn heyra til álfa eða sjá þá á veiðivötnum snemma á vorum þykir það vita á góða silungsveiði. Oft ber það við að menn sjá eins og lognrákir á sjó þó annarstaðar sé gráð á að sjá; segja menn að það séu kjalför undan bátum huldumanna og þá „séu huldumenn að róa“. Þeir fara og til berja, segir Ólafur, með mönnum. Það var almenn trú að álfar væru tvenns konar, sumir góðir, en sumir illir. Góðu álfarnir voru kristnir og héldu vel trú sína; þeir höfðu því kirkjur og klerka og alla helgisiði sem kristnir menn.[6] Dr. Maurer segir að sér hafi verið sýndur álfakirkjugarður hjá Hofstöðum í Þorskafirði og að menn þykist endur og sinnum hafa heyrt að grafið sé í honum, en einkum þegar klakahögg sé á vetrardag. Miklu víðar hafa menn og þótzt heyra inni í klettum og jafnvel klukknahljóð á helgum dögum.

Þá áttu álfar að hafa þing og er enn til álfaþing hjá Húsavík í Steingrímsfirði hæst uppi á klettanibbu þverhníptri. Finnur biskup getur þess að tveir álfakóngar hafi verið á Íslandi; áttu þeir að fara til skiptis sitt árið hvor til Norvegs með nokkrum mönnum til að gjöra yfirkóngi þeirra þar grein fyrir hvernig hér væri ástatt. Þó álfar séu svo líkir mönnum í sumum greinum sem nú hefur verið sagt eru þeir þó að öðru leyti mjög ólíkir þeim eða vanþekking vor á þeim veldur því að svo virðist. Þeir eru eins konar andar sem mennskir menn ekki fá séð að óvilja þeirra nema skyggnir séu eða hafi þeir riðið augnasmyrslum álfa á augu sér. Þeir eru eftir því sem sögur fara af gæddir margfalt meiri hæfileikum til sálar og líkama en menn og því mega þeir vinna mönnum bæði gagn og tjón eftir því sem þeir eru skapi farnir og kemur heim þá vel að haldi að þeir mega taka á sig hverja mynd er þeim líkar. Álfarnir illu áttu að vera ókristnir og harðgeðja og vinna af því mörgum manni tjón og gjöra margt til meins.[7] En til allrar hamingju mega þeir ekki eins mikið og hinir góðu[8] og því er það heill mikið að koma sér vel við hina síðarnefndu og hjálpa þeim ef þess er auðið því þeir eru guðhræddir og góðhjartaðir og gjöra engum illt að fyrra bragði óáreittir. En ef álfar reiðast þó góðir séu leggst hefnd þeirra svo þungt á þann er fyrir henni verður að honum er lítillar líknar von þaðan af.

Að skaplyndi til eru álfar mjög alvarlegir og virðast hafa óbeit á öllum gáska og glettingum og því hafa þeir oft reiðzt illa ef börn eða fullorðnir hafa orðið of nærgöngulir bústöðum þeirra og haft þar galsa í frammi, en þó sakar engan er það gjörir ef hann veit ekki að þar eru álfahíbýli er hann aðhefst slíkt eða þó gengið sé hjá slíkum stöðum með kurteisi og siðsemi. Eins þykkjast álfar ef þeim virðist menn ásælast það er þeir þykjast sjálfir eiga; vara þeir menn stundum við slíku, en hefna sín þá ef eigi er að gjört eða og þeir láta hefndina þegar dynja yfir. Ólafur í Purkey getur þess aðeins einu sinni að skyggn maður hafi séð huldupilt, hér um bil 10 veta, hoppa á öðrum fæti fyrir utan kletta nokkra og allt í kringum annan mann með gáska nokkrum er var að slá hjá honum. Sami getur þess að konur hafi breitt nýþvegin faldtröf til þerris á skógarhríslu í Bæjarborginni hjá Arnarbæli fyrir vestan. Sá þá Bjarni langafi Boga á Staðarfelli er þá bjó í Arnarbæli og var að ganga um gólf fyrir utan bæinn að maður gekk að tröfunum, brá fingrinum aftur og aftur í munn sér og drap honum á tröfin. En er tröfin voru sótt voru þau öll með smáblettum mórauðum og urðu aldrei notuð til kirkju.


  1. Álfhólar og Álfaborgir eru svo margar á Íslandi að varla verður tölu á komið. [Á uppdráttum herforingjaráðsins af Íslandi eru yfir 20 örnefni sem kennd eru við álfa, sum koma víða fyrir.]
  2. Sbr. „Ljúflinga-Árni“, sama sem „Álfa-Árni“
  3. Bæði í þessum inngangi og í sögunum sjálfum eru nöfnin „álfafólk“ og „huldufólk“ höfð jöfnum höndum og þó öllu oftar „álfkona“ en „huldukona“, en aftur á móti að öllum jafnaði „huldumaður“, „huldupiltur“ o. s. frv.
  4. Sbr. Álfkona býr með mennskum manni
  5. Sbr. Álfakóngurinn í Seley, o. fl.
  6. Sjá sögu af Ljúflinga-Árna.
  7. Það er sagt að Álfa-Árni (Ljúflinga-Árni) hafi varað við að ganga í steininn mikla sem er fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu því þar búi illir álfar og alheiðnir.
  8. Sjá Huldumaðurinn og Geirmundur hái.