Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jóla- og nýjársgleðir álfa (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Jóla- og nýjársgleðir álfa

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Einna mest ber á álfum um jólaleytið og nýjárið og virðist fleira en eitt bera til þess. Bæði er skemmtanatími þeirra mestur um það leyti ársins þó einnig finnist dæmi til þess að þeir haldi bæði til páska og sumardaginn fyrsta;[1] en um jólin hafa þeir samsæti og veizlur, hljóðfæraslátt og dansferð ýmist í mannahíbýlum eða í álfabyggðum, og þar að auki halda þeir fardaga sína um nýjárið[2] og var þá ávallt nokkuð um dýrðir fyrir þeim, og er einkum sagt að þeir hafi farið á nýjársnótt úr einum stað í annan vistferlum og búferlum. Því var sú venja hér lengi höfð að konur og húsmæður létu ljós loga í hverju horni og hverju húsi á bæ sínum svo hvergi bæri skugga á alla nóttina. Allar dyr áttu að standa opnar upp á gátt og allt að vera sópað og hreint svo hvergi sæi sorp né duft í krók eða kima. Síðan skyldi kona eða húsmóðir sjálf ganga til og frá um allan bæinn og segja: „Veri þeir sem vera vilja,“ eða „komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.“

  1. Sjá Álfakóngurinn í Seley
  2. Þó hafa menn sögur af því að álfar flytji búferlum endranær, sjá Flutningurinn