Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skrímsli (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Skrímsli
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þó nykrar séu öllu líkari dýrum en mannslíki sem álfar birtast mönnum í eru þó þeir vatnabúar er skrímsli heita enn fráleitari allri mannslíking,[1] enda er oft ekki auðið að gjöra þeirra nokkurn greinarmun og annara dýra er ímyndun þjóðarinnar hefur fundið eitthvað yfirnáttúrulegt við, og því verður síðar nokkuð vikið á sum slík dýr. Með orðinu skrímsli (í fornmálinu skrímsl) tákna menn nú oftast sérhverja óákveðna ófreskju er menn þykjast hafa séð eða heyrt um getið, og ef þeim er lýst verður sjaldan ráðið af lýsingunni hvaða skepna það eigi helzt að vera; svo er lýsingin skrímslisleg eða skrípaleg. Bæði eru til sjóskrímsli og vatnaskrímsli og þekki ég enga aðgreining þeirra. Vatnaskratti er á Suðurlandi og um Borgarfjörð almennt nafn á ófreskjum þeim sem annarstaðar eru kallaðar vatnskrímsli. Þó er það stundum sama sem nykur, t. d. í gátunni:

„Þar reið maður þétta braut,
þandi’ út kálfa báða
vatnaskratti og þjófaþraut,
þú skalt nafnið ráða.“[2]

Í Grímsey fyrir norðan fara margar sögur af sjóskrímsli. Þykjast menn þar hafa orðið þess varir að það komi á land á náttarþeli og séð að það veltist áfram eins og rokkhjól eða skerborð og fundið slor eftir það þar sem það hafi legið í grasinu. Aðrir ætla að slík sjóskrímsli séu hvalur sá er skeljungur heitir og sagt er að grandi skipum. Í Þorskafirði vestra er og getið skrímslis eins er sé hættulegt fyrir skip og leitist við að hvolfa undir mönnunum. Það skrímsli hefur oft sézt og lítur þá út eins og skip á hvolfi. Ekki eru skrímsli þessi síður í vötnum en í sjó sem fyrr segir, og þykjast menn hafa séð eitt neðarlega í Þjórsá í hákarlslíki eða skötulíki og annað til í sömu á alla götu upp hjá Sóleyjarhöfða í óbyggðinni. Undir Eyjafjöllum er vatnaskratti í skötulíki þegar menn hafa komið auga á hann, og er það haft til sannindamerkis að það sé skrímsli en ekki venjuleg skata að hún gangi aldrei upp í vötn. Þetta skrímsli er illt viðureignar og leitast við að draga menn og skepnur niður til sín í vatnið. Bæði í Skorradalsvatni og Hvítá í Borgarfirði eru skrímsli. Hafa menn stundum séð það í vatninu marga daga í röð, t. d. á jólaföstunni 1858 og það allt fram yfir jól. Það eru ekki fleiri en fimm til sex ár síðan að seli fór að reka höfuðlausa upp úr Hvítá í Borgarfirði, allt upp hjá Þingnesi og Stafholtsey; 1858 voru þeir ekki færri en níu sem rak þannig á sig komna og var það mál manna að skrímslið í ánni hefði bitið af þeim hausana.


  1. Ef nú sögur um þess konar skrímsli kynnu að þykja eiga lítið skylt við álfasögur er þess þó að geta að eitthvað er líkt á komið með þessum sögum og sögnum um dverginn Andvara er brást í geddulíki og Loka í laxalíki; sbr. Reginsmál og Lokasennu.
  2. Maðurinn hét Nikulás; ætti þá vatnaskrímsli að vera nykur, en þjófaþraut sjálfkenning um lás