Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Afturgöngur (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Afturgöngur
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Eðlilegast er að þeir gangi aftur sem höfðu í lífinu svo miklu heimsláni að fagna að þeir gátu ekki skilið sig fyllilega við það eftir dauðann. En það eru þó reyndar miklu fleiri en þeir sem munnmælin hafa gjört að afturgöngum, t. d. hráblaut börn sem út voru borin jafnharðan og þau skruppu inn í heiminn, menn sem áttu við enga auðsæld að búa, þá sem dáið hafa voveiflega, þá sem illa þótti fara um bein sín eftir dauðann, þá sem lifandi menn hafa boðið til sín lífs eða liðnum, þá sem voru illmenni í lífinu, maurapúkar er elskuðu fé sitt fremst af öllu, þá sem annaðhvort unnu þeim sem lífs voru eða hötuðu þá, og enn mætti ef til vill telja fleiri slíka sem áttu að hafa gengið aftur sinn af hverri ástæðu, eins og nú var sagt og nákvæmar verður til tekið við hvert þessara atriða. Einna mest kveður þó að þeim sem gengu aftur af fúlmennsku eða heift til að vinna þeim mein er þeir hötuðu í lífinu. Um þá er altítt að þeir heituðust við þann eða þann að ganga aftur. Var þess þá sjaldan langt að bíða að slíkir piltar dræpu sig sjálfir eða dæju snögglega til þess að geta því fyrr kornið fram hefnd sinni; þó er það engu sjaldnar að ástfangnir hafa slíkar heitingar í frammi. En það er aftur eftirtektavert að nálega hvergi sem ég hef heyrt um getið á Íslandi fara neinar sögur að marki af draugagangi þar sem óbótamenn hafa verið teknir af, en þó er það almæli að á þeim stöðum sé „eitthvað óhreint“. Þess er og getið í munnmælasögum að hinir dauðu gangi allir úr gröfum sínum á nýjársnótt, og er það kallað að „kirkjugarður rísi“. Hinir framliðnu koma þá upp í líkblæjunum, ganga inn í kirkju og halda þar messugjörð og hverfa síðan.

Meðan hinir dauðu eru á reiki ofan jarðar eru grafir þeirra opnar sem síðar mun sagt verða. Þá ganga og svipir þeirra er deyja næsta ár í sókninni eða verða grafnir að hverri kirkju inn í kirkjuna. Mælt er að stúlka ein ung og efnileg reyndi þetta og var úti í kirkju eina nýjársnótt. Sá hún þá svipina koma inn í kirkjuna, hvern eftir annan og seinast svip unnusta síns. Varð hún þá svo hrædd að hún leið í ómegin. En er af henni leið sá hún svip sjálfrar sín koma inn í kirkjuna. Þegar svipirnir höfðu verið þar um stund hurfu þeir allir aftur. Morguninn eftir sagði hún frá því er fyrir hana hafði borið og þótti það rætast. Veturinn eftir dó heitsveinn hennar og hún sjálf skömmu síðar.

Það var og enn trú hjá alþýðu að maður sá er fyrst er grafinn í kirkjugarði rotni ekki og taki æ á móti þeim er síðar verða grafnir. Þann mann hafa menn kallað „vökumann“ því hann á að vaka yfir garðinum. Ósjaldan hafa menn þótzt finna slíka vökumenn; eru þeir ófrýnir ásýndum, en þó rauðir í andliti eins og aðrir menn og órotnir; sumir segja að þeir eigi að vera rauðklæddir, en aðrir að þeir séu á grænum kjól. Í kirkjugörðunum í Reykholti og Síðumúla, á Lundi og Gilsbakka er sagt að vökumaður liggi í Sturlungareit, en það er útnorðurfjórðungur þessara garða. Ekki er langt síðan að mönnum var lítið um að láta grafa sig í þessum reit eða ættingja sína. Líkt er varið með kirkjugarðinn í Görðum á Álftanesi því í útsuðurhorninu á honum áður en hann var færður inn átti einu sinni að grafa lík og komu líkmennirnir þar ofan á mann órotinn og rauðklæddan er þeir tóku gröfina. Var þá presti sagt til, en hann bauð að byrgja gröfina aftur hið bráðasta og var enginn grafinn síðan í því horni af garðinum.

Það er þessu máli nokkuð skylt að þegar grafið er í gröfum galdramanns finnast hauskúpur þeirra heilar og ófúnar og heilinn óskaddaður; sést það inn um mænuholið að hann dúfar og bærist og er það af því að sálin geymist í heilanum til dómsdags. Slíkar hauskúpur á að hylja í mold meðan þær eru uppi, gjöra síðan gryfju í einu horni grafarinnar, leggja hauskúpuna þar ofan í og hylja mold áður gröfin er fyllt aftur með mold og líksöngur byrjar.

Stundum þykjast menn hafa orðið varir drauga er eldglæringar eða hrævareldur hafi lagt út frá alla vegu þar sem þeir voru á kreiki; er það allt annað en málmlogi eða vafurlogi upp af peningum sem síðar mun sagt verða og enn heldur annað en heitur eldur eða skot sem almennt er talin bezt vörn við draugum næst klukknahljóði. Ef manni er grunsamt um að dauðir menn gangi aftur er það ráð við því að reka nálar[1] eða oddhvassa nagla neðan í iljar þeirra áður en þeir eru grafnir; það er og annað ráð að reka nagla ofan í leiði þeirra um hámessu milli pistils og guðspjalls, og var manni nokkrum ráðlagt að gjöra það við leiði móður sinnar því hún sótti að sonardætrum sínum er höfðu dregið dár að henni í lífinu, og dugði honum það vel. Meira hér að lútandi sýna sögurnar sem nú koma.


  1. Sbr. söguna Þú átt eftir að bíta úr nálinni.