Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fólgið fé (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Fólgið fé

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Ekki er öllu færri sögur um fólgið fé[1] en um fépúka og hafa þær allar eitthvað draugalegt við sig sem líklegt er því bæði eiga draugar að hafa fólgið flest slíkt fé sem áður er sagt til þess að vitja þess aftur eftir dauðann, og af því að þar sem fé er fólgið í jörðu er sagt að blár logi leiki yfir þegar myrkt er á haustum og þegar hlákur ganga á vetrum, en mjög sjaldan á sumrum. Logi sá er upp af fénu leggur er ýmist kallaður vafurlogi eða málmlogi. Ekki eru það seinni alda hugsmíðar einar að eldar sjáist brenna á víðavangi því þeirra er og getið í fornum sögum og kallaðir haugaeldar. Orðið „vafurlogi“ kemur og fyrir í Sæmundar-Eddu og merkir þar flögrandi loga eða eld sem ver sali gyðja og kvenna, en ekki málmloga eða loga upp af grafsilfri. En svo lítur út sem nú sé að minnsta kosti hjá alþýðu lögð sama þýðing í bæði orðin, vafurloga og málmloga, og merki hvort tveggja eld sem logi upp af fólgnu fé. Nú skal hér getið nokkurra staða þar sem logar þessir hafa sézt.

  1. Það er stundum í fornum bókum kallað grafsilfur, en í munnmælum er það oftast nefnt dalakútur.