Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sæbúar í mannslíki (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Sæbúar í mannslíki

Þjóðsagnasafn se+m kom út í Leipzig 1862-1864.

Tvenns konar sæbúar eru það sem næst ganga álfum og er sagt að þeir séu í manns líki; er annað þeirra hafgýgur, haffrú, margýgur eða meyfiskur er allt mun vera eitt, en hitt er marmennill sem nú er almennt nefndur marbendill. Margýgi hefur verið svo lýst að hún hafi gulleitt hár og sé í mannslíki niður að beltisstað, en þar fyrir neðan sé hún fiskur og hafi þar með sporð. Stundum þykjast sjómenn sjá hana, en oftast er sagt það hafi að borið norður við Grímsey. Hún þykir helzt gefa ungum mönnum auga og sækir þá upp á skipin ef þeim verður það að dotta, en Credo í Grallaranum gamla er góð vörn við slíku. Marbendillinn hefst við á mararbotni, en sést aldrei ofan sjávar nema þegar hann hefur verið dreginn sem síðar skal getið. Af honum dregur marbendilsmíði (millepora polymorpha) nafn; er það gulhvítur kalksteinn, allur hrufóttur og körtóttur utan, er skolar upp af mararbotni. Segja menn að slíkt séu smíðisgripir marbendla. Landnáma og sagan af Hálfi Hálfsrekkum sýna það bezt að marbendlatrúin er ekki ung. Ekki allsjaldan hafa menn náð marbendlum og að vísu oftast dregið þá úr sjó lifandi, og hafa þá stundum verið með öngla og net, en þó ganga sögur af því að þeir hafi fundizt reknir af sjó dauðir eða komið innan úr hákarlsmaga. Þegar svo ber við að þeir eru dregnir lifandi vilja þeir ávallt komast út aftur á sama svið sem þeir eru dregnir á; fáorðir eru þeir og sinna lítt mönnum. Lítt kunnug er mönnum háttsemi marbendla, en það vita menn að þeir eiga kýr góðar; eru þær allar sægráar að lit og hafa blöðru milli nasanna eða framan á grönunum, og verði hún sprengd þá næst kýrin; annars eru sækýr óhemjandi. Sækýr eru ágætar mjólkurkýr og góðar til undaneldis.