Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Örnefni – Margvísleg skipti við útilegumenn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Örnefni - Margvísleg skipti við útilegumenn
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þessi trú hefur verið mjög almenn hér á landi og er naumlega enn útkulnuð með öllu, að útilegumenn væru til, og er það ekki aðeins alþýðumanna trú, heldur einnig skynugra manna skoðun og greindra. Því verður ekki heldur neitað að nokkrar líkur eru til þessa, t. d. þar sem örnefni eru gefin eftir þeim mönnum sem sagt er að verið hafi í útilegu og annað illar heimtur á haustin. Einu sinni átti séra Jón sál. Hjaltalín tal um illar heimtur við Arnes fjallaþjóf og komst að því hjá honum að útilegumenn yllu óskaplegum fjárhvörfum; þar með gat Arnes þess að fjárhvörf frá byggðamönnum yrðu aldrei meiri en eftir harða vetur af því útilegumenn gjörfelldu þá allt fé sitt og yrðu þeir að bæta sér það með því að stela því meira í skarðið. Víst er um það að ekki er mönnum enn grunlaust um að það sé útilegumönnum að kenna ef fé hverfur svo furðu gegni, og má vera að sögur þær sem enn ganga manna á milli um slíka viðburði ali þá trú hjá almenningi. Nú koma þá sögurnar, fyrst þær sem sýna að örnefni eru kennd við útilegumenn í óbyggðum og þar á eftir um ýmsa viðureign þeirra við byggðamenn og viðskipti. Færri af þessum fyrstu sögum eru mjög ótrúlegar eða skreyttar.