Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Nykur

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Sögur um nykurinn sem og nennir er kallaður eða vatnahestur eru þó enn ólíkari að eðli sínu álfasögum. Nykur er bæði í ám og stöðuvötnum og jafnvel á sjó. Hann er líkastur hesti að öllu skapnaðarlagi, oftast grár að lit, en þó stundum brúnn, og snúa allir hófarnir aftur, hófskeggin öfugt við það sem er á öðrum hestum; þó er hann alls ekki bundinn við þessi einkenni; hitt er honum eiginlegt að hann breyti sér snögglega á ýmsa vegu að eigin vild. Þegar sprungur koma í ísa á vetrardag verða þar af dunur miklar; segja menn þá að nykurinn hneggi. Hann kastar fyli eins og hestar, en allt í vatni, en þó hefur það borið við að hann hafi fyljað hross manna. Það er einkennilegt við alla þá hesta sem undan nykur eru að þeir leggjast niður hvort þeim er riðið eða þeir bera bagga yfir vatnsfall sem vætir kvið þeirra, og hafa þeir þá náttúru af nykrinum því hann heldur sig á landi við ár og vötn sem ill eru yfirferðar; er hann þá spakur og tælir menn til að ríða sér yfir. Þegar það hefur borið við að menn hafi farið honum á bak hleypur hann óðar út í vatnið og leggst þar og dregur þá með sér, er á sitja, niður í vatnið. Ekki þolir nykur að heyra nafn sitt eða nokkurt orð er því líkist, þá tekur hann viðbragð og hleypur í vatnið. Trúin á nykra hefur verið um allt land, og því eru sögur um það nálega í hverju héraði að þeir eigi að vera í því eða því vatni eða þeirri og þeirri á, en trauðlega þó í þeim sem straumharðar eru. Í Grímsey fyrir norðan er það trú að nykur sé þar í sjónum og að hann hneggi er hann viti að eyjarskeggjar hafi sótt kú til meginlandsins; verða þær hamslausar af hneggi hans, stökkva í sjóinn og farast svo. Til þessa bendir og það að Grímseyingar hafa ekki árætt fyrr en nú á seinni árum að hafa kú í eynni.