Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skyggnleiki (inngangur)

Úr Wikiheimild
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Á Íslandi er sú trú almenn að sumir menn sjái þær verur (anda) sem öðrum eru ósýnilegar. Þeir menn eru nú kallaðir skyggnir, en að fornu fari ófreskir menn, en ófreskju kalla menn skrímsl og forynjur; einnig er svo að orði komizt að sá eða sá „sjái allt í jörð og á“ eða „í gegnum holt og hæðir“.[1] En það er sagt að þeir einir verði skyggnir sem skírnarvatnið fari ekki í augun á þegar þeir eru skírðir.[2] Sumir hafa og þeir menn verið sem ekkert illt, óhreint eða draugar, þorir framan að og veldur það því að annaðhvort eru þeir skyggnir eða þeir hafa loðinn kross á brjóstinu eða þeir eru sambrýndir, þ. e. þegar augabrýrnar ná saman fyrir ofan nefið, en þess meir mega þeir gjalda varhuga við að óhreint komi ekki aftan að þeim. – Að öðru leyti þykir eitthvað draugalegt við sambrýnda menn, hvort heldur það er það að þeir sjúgi blóð úr sofandi mönnum eða sendi öðrum martröð.

Eins og nú var sagt er skyggnum mönnum einkum gefið að sjá alls konar yfirnáttúrlegar verur því þeir einir sjá álfa að óvilja þeirra og drauga og fylgjur og allt þess kyns, og má því þetta hyski ekki koma skyggnum mönnum á óvart. Þó er ekki minna í það varið að þeir sjá þetta ekki einungis sjálfir, heldur er þeim sjálfrátt að sýna það hverjum sem þeir vilja með því að láta þá standa undir vinstri handarkrika sér; skyggnir menn eru og sjaldan hræddir við drauga. Hin gáfan, að sjá í gegnum holt og hæðir, er þessari mjög skyld, en miklu sjaldgæfari og hefur þó orðið stundum að liði sem dæmi eru til. Þessi gáfa er sá hæfilegleiki að sjá ekki síður fjarlæga hluti á þeim tíma er þeir verða en nálæga.[3] En báðar þessar gáfur eru það sem ekki hvað minnst hjálpa til að vita orðna hluti og jafnvel óorðna og því er oft ærið torvelt að sjá hvort heldur skal heimfæra slíkt til skyggnleika eða forspáleika svo að það eru kallaðar fyrirsagnir eða forspár ef skyggnir menn hafa orð á því sem fyrir þá hefur borið. Hér skal nú geta nokkurra dæma í sögum til hvors tveggja þó skyggnleika sé allvíða getið bæði i álfasögunum og draugasögunum á undan.

  1. Sjá Ævintýrin.
  2. Sú önnur orsök er til þess að huldufólk er skyggnt, sjá Konan á Skúmsstöðum, og Álfkonan í Ásgarðsstapa.
  3. Allt er það annað mál að menn hafa séð í skuggsjá um allan heim eins og þegar Oddur Gottskálksson sýndi Gísla biskupi í gegnum stein Selárdal úti á Íslandi, en þeir voru þá staddir í Kaupmannahöfn.