Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nátttröll (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Nátttröll

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þess er áður getið að nátttröll séu ein tegund trölla og héldu þau sig oftast í tilteknum fjöllum sem við þau eru kennd síðan, annaðhvort af því að tröllin hafa búið í þeim eða liggja þar grafin eða þau hafa dagað þar uppi og orðið svo að steini sem síðan heitir karl eða kerling. Nærri slíkum nátttröllum liggur hugmyndin um svo marga hina fyrstu landnámsmenn hér, bæði þá sem sögurnar segja af að „hafi dáið í fjöllin“ og aðra, t. d. Bárð í Snæfellsjökli, Ármann í Ármannsfelli og enn fleiri þó ekki sé með berum orðum sagt að þeir hafi allir verið tröll, og því þykir réttast að geta nokkurra þeirra hér þegar búið er að segja fyrst frá hinum meinsömu og síðan hinum meinlausu nátttröllum því flestir slíkir fornmenn er í fjöll hafa hvorfið hafa þótt góðir landvættir.