Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumar (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Draumar

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Loksins er hin fjórða vitrunargáfa og eru það draumarnir. Sú gáfa er án efa flestum mönnum gefin og því mun mega kalla hana almenna. Þó er mikill munur á því hverja mest dreymir og minnst því suma dreymir sjaldan, en aðrir leggja varla svo aftur augun svo að þeim hverfi minni að þá dreymi ekki. En sagt er að þeir missi draumgáfuna sem annaðhvort ljúga til drauma sinna eða segja ekki frá því sem þá dreymir og að þeir muni aldrei drauma sem fyrr hreyfi höfuðið en fæturna þegar þeir vakna. Menn hafa á öllum öldum frá því fyrst ganga sögur af í ritningunni og allt til þessa dags ætlað að margt mætti marka af draumum. En af því draumar hafa þá ekki allajafna þótt rætast hefur það komið upp úr kafinu sem stendur í annari kroniku að „ekki sé mark að draumum“ og að oft sé ljótur draumur fyrir litlu. En við drauma er einkum tvennt að athuga, fyrst það hvort þeir beri fyrir mann með vaxanda tungli eða þverranda því þeir draumar sem menn dreymir fyrir fyllingu koma fljótt fram, en hinir er sagt að eigi sér allt lengri aldur; hitt atriðið er hvernig draumar eru ráðnir og varðar það miklu því sagt er að „svo rætist hver draumur sem hann er ráðinn“.

Eins og það er misjafnt hvern mest dreymir eins er mikill munur á því hverjir ráða bezt drauma, en oft fylgist það að að þeir sem mest dreymir og mesta trú hafa á draumum eru betri draumþýðendur en hinir sem sjaldan dreymir og lítinn trúnað leggja á þá, þó er auðvitað að meðfædd greind og reynsla gera mikið að verkum í þessu sem öðru. Það er enn athugandi að ýms nöfn eru kölluð „hörð í draumi“, bæði karlanöfn og kvenna, og „eru þau þeim fyrir illu“ sem dreymir þá menn hvernig svo sem þeir hafa verið skapi farnir meðan þeir lifðu eða eru ef þeir lifa. Öll þau mannanöfn eru hörð í draumi sem samsett eru af steinn eða sem eitthvað illt og óþjált liggur í, t. d. Bergsteinn, Illugi, og þau sem mynduð eru af Þór og kvennanöfnin Valgerður, Valdís, Ragnheiður eða Ragnhildur sem leidd eru af valkyrjum eða tröllkonum, og enn mörg önnur bæði karla- og kvennaheiti. En þó er mikið undir því komið hver viðskipti menn eiga við þann sem fyrir mann ber í drauminum og hvernig honum farast orð til þess sem dreymir og oft rætist að „mikill draumur er fyrir litlu efni“, eins og hitt að „menn dreymir fyrir daglátum“, og eru þeir menn kallaðir „berdreymir“ af því að draumar þeirra eru svo ljósir að þeir þykja sýna berlega hvað í þeim liggur. Nú skal hér sýna fáein dæmi í sögum.