Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumenn ræna byggðamönnum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Útilegumenn ræna byggðamönnum
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Auk þeirra margvíslegu viðskipta sem nú hefur verið getið um stund milli útilegumanna og byggðamanna eru enn allmargar sögur af því að fjallabúar hafi numið til sín og rænt ekki einungis konum úr byggð, heldur og karlmönnum. Kemur það þá bersýnilega fram að margir fjallabúar eru fjölkunnugir svo að þeir ýmist gera mönnum veiki, svefnhöfga og drauma eða þeir villa þá til sín; þokur og hríðarbylji hafa þeir og í hendi sinni til þess sem þeir vilja, og fleiri töfrabrögð eru þeim eignuð. Konur þær sem fjallabúar hafa náð á sitt vald sitja þeir jafnaðarlega uppi með, annaðhvort með ljúfu samþykki kvennanna sjálfra svo að þær una vel hag sínum í óbyggðum eða þá, ef þær frelsast um stund frá fjallabúum fyrir tilstilli þeirra manna í fjallabyggðum sem áður hafa komizt á vald hinna sömu útilegumanna, að þeir vinna það til að fara í sveit til að ná þar sömu konunni aftur og ganga svo að eiga hana og ílengjast eftir það í byggðum. En þó hefur einnig oft borið út af þessu þegar byggðamenn hafa verið svo vaskir að þeir hafa annaðhvort strádrepið illþýðið eða átt ráð á lífi þess, og hafa þeir hinir sömu þá gengið að eiga þær konur sm þeir hafa frelsað. En sjaldnast hefur það borið við að stúlkur hafi af sjálfsdáðum komizt úr höndum útilegumanna og jafnsjaldgæft er það að þær hafi frelsað þaðan karlmenn. Í ekki fáum af þessum sögum koma fyrir heil og reglubundin sveitafélög í óbyggðum eins og áður er getið[1] og skipaðir yfir þau sýslumenn og sumstaðar prestar og helgihöld höfð eins og í sveitum, og þessir hættir útilegumanna gera sögurnar um þá svo líkar álfasögum eins og við er að búast þar sem mönnum er hér um bil jafnkunnugt um háttalag hvorra tveggja. Frásögnin á sumum þessum sögum er talsvert skreyttari en í hinum fyrri og víða svipar þeim til ævintýra.


  1. Sjá söguna á undan af ’’Guðmundi og Þorsteini’’