Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Uppvakningar eða sendingar (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Uppvakningar eða sendingar
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Undir þenna annan kafla af draugasögum lúta hvernig sem þeim að öðru leyti er varið allar þær sögur um drauga sem fjölkynngismenn hafa vakið aftur til lífs og neytt til sinnar þjónkunar. Þegar í heiðni er getið uppvakninga eða um að vekja upp þar sem orðatiltækin koma fyrir: „útisetur að vekja tröll upp;“ náskylt er það og þessu er fornmenn gjörðu mann af leiri, létu í dýrshjarta og settu hann til mótstöðu fjandmönnum sínum eða og að mannslíki var gjört úr tré og látið í mannshjarta og síðan magnað svo með tröllskap og fjölkynngi að trémaðurinn gekk og mælti við menn og framkvæmdi síðan hlutverk það er höfundur hans hafði ætlað honum öðrum til ills. Nú á dögum hefur sú list að vekja upp drauga lagzt svo í lóg að ekki eru allir á einu máli um hverja aðferð skuli þar við hafa. Sumir segja að taka skuli dauðs manns bein eitthvert og magna það með fjölkynngi svo að það fái mannsmynd og senda síðan þeim er maður vill mein gjöra. Ef sá er sendingin er send er svo fróður að hann geti hitt einmitt á það beinið í uppvakningnum er tekið var úr hinum dauða eða og að nefna hann með réttu nafni orkar draugurinn ekkert á manninn að vinna og verður að hverfa svo búinn frá honum.

Þótt nokkrar af sögum þeim er þegar koma sýni að þessi aðferð hafi stundum verið tíðkuð segja þó aðrir að meir þurfi við að hafa ef menn vilji vekja upp draug. Fyrst er þess að gæta að það sé gjört á nóttu sem sé milli föstudags og laugardags og jafnframt sé hún annaðhvort milli hins 18. og 19. eða 28. og 29. einhvers mánaðar; en einu gildir hver mánuðurinn er og vikan. Skal særingamaður sá er vekja vill upp draug kvöldinu áður snúa „faðirvor“ öfugt og rita það á blað eða bjór með keldusvínsfjöður úr blóði sínu er hann vekur sér á vinstra handlegg; einnig skal hann rista rúnir á kefli og fara síðan með hvorttveggja út í kirkjugarð um miðnætti, ganga þar að einhverju leiði því er honum sjálfum lízt; en þó þykir varlegra að ráðast heldur að hinum minni. Skal svo leggja keflið á leiðið og velta því fram og aftur um það, en þylja á meðan öfugt „faðirvor“ upp af blaðinu og auk þess ýmsa töfraformála sem fáir munu kunna. Fer þá leiðið smásaman að ókyrrast og ýmsar ofsjónir að bera fyrir særingamanninn meðan draugurinn er að mjakast upp; en það gengur seint því draugar eru sárnauðugir að hreyfa sig og segja því: „Láttu mig vera (eða liggja) kyrran.“ En hvorki má galdramaðurinn gefa sig við þá bæn né láta sér bregða við ofsjónirnar, heldur þylja þulur sínar í ákafa og velta keflinu þangað til draugurinn er hálfur kominn upp. Jafnframt skal hann þó vandlega gæta þess að eigi hrynji moldin úr leiðinu þegar það fer að ypptast því þeirri mold verður ekki komið ofan í aftur. Þegar draugurinn er kominn hálfur upp úr skal spyrja hann að tveimur spurningum, en eigi þremur því ella mundi hann hverfa niður aftur fyrir þrenningunni og eru spurningarnar vanar að vera: 1. hver hann hafi verið í lífinu, og 2. hversu mikill maður fyrir sér. Aðrir segja að spurningin hafi verið aðeins þessi eina: „Hvað ertu gamall?“ Ef draugurinn segist hafa verið meðalmaður eða meir til burða þykir eigi ráðlegt að halda lengra áfram með því það liggur fyrir særingamanni að takast á við hann á eftir, því draugar eru ákaflega sterkir eins og orðatiltækin „heljarafl“ og „heljarmenni“ benda til sem enn eru tíðkuð um afarmenni til burða, og er það sagt að þeir hafi hálfu meira afl en þeir höfðu í lífinu að tiltölu við aldur sinn. Þetta er því ástæðan til þess, að særingamenn velja helzt til uppvakninga börn, tólf til fjórtán ára gömul, en annars kostar menn sem ekki eru komnir yfir þrítugt og alls ekki þá sem eldri eru en þeir sjálfir.

Þegar draugurinn segir til sín og aldurs síns, kominn upp úr gröfinni til hálfs, kemur særingamaður honum niður aftur ef honum sýnist svo eða hann heldur áfram særingunni unz hann er kominn alveg upp. Þegar draugar koma fyrst upp úr gröfum sínum vella öll vit þeirra, munnur og nasir, í froðuslefju og saur til samans og heitir það náfroða; hana á galdramaður að karra af þeim með tungu sinni og segja sumir að þaðan sé dregið orðatiltækið „að sleikja upp vitin á einum“. Þar með skal hann vökva sér blóð undir litlu tánni á hægra fæti og vökva með því tungu draugsins. Þegar særingamaður er búinn að þessu segja sumir að draugurinn ráðist á hann og verður þá særingamaður að neyta allrar orku til að koma honum undir; ef það tekst og draugurinn fellur er hann úr því skyldur til allrar þjónkunar við galdramanninn, en verði draugurinn manninum yfirsterkari dregur hann manninn með sér í gröf sína og hafa þeir engir aftur komið sem þangað hafa komizt á vald drauga. En aðrir segja svo frá að særingamenn ráðist á drauginn þegar hann er aðeins kominn upp til hálfs og brjóta hann þannig á bak aftur fastan á fótum og fatlaðan eins og þeir eru meðan ekki er búið að sleikja upp á þeim vitin og vökva þá á volgu mannsblóði. En lítist nú særingamanni einhverra hluta vegna að láta drauginn ekki koma lengra upp en til hálfs og vilji reyna að koma honum niður aftur dugar oftast til þess að nefna þrenninguna eða lesa faðirvor rétt, en hafi draugurinn verið sjálfur galdramaður meðan hann var lífs þarf meira til. Verður þá særingamaður að hafa hjá sér band og sé það fest í klukkustrengina báða eða alla ef fleiri eru því annars tekur draugurinn í þann strenginn sem laus er og hringir þeirri klukkunni í mót særingamanni svo að engar þulur eða töfraformálar orka á hann; því á meðan galdramenn koma draugum fyrir eiga þeir að hringja í sífellu og lesa auk faðirvors yfir þeim töfraþulur, allar aðrar en þær er þeir eru vaktir upp. En komi særingamaður draugnum ekki niður fylgir hann honum og niðjum hans í níunda lið. Slíkt hið sama gjöra og draugar þeir er framkvæmt hafa það er höfundar þeirra hafa lagt upphaflega fyrir þá nema þeir þurfi að hafa þeirra not til fleiri sendiferða eða fái þeim fyrir komið, og mega þá galdramenn eiga nokkuð hjá sér ef þeir eiga laglega að geta það prettalaust; því aðrar sagnir segja að draugar séu æ að magnast hin fyrstu fjörutíu ár sem þeir eru ofanjarðar, standa í stað hin næstu fjörutíu ár, en fella af hin þriðju fjörutíu ár; lengri aldur er þeim ekki ætlaður nema áhrínsorð eða ummæli valdi.

Ekki er það ávallt að uppvakningar séu í mannslíki eða af mönnum komnir þó það sé langoftast; en til að sanna sögu mína um það að annars konar uppvakningar í ýmissa dýra líki hafi einnig verið skírskota ég til sagnanna sjálfra sem á eftir koma (t. d. Hjónadjöfullinn, Svartidauði, Þorgeirsboli o. s. frv.).

Tilgangur galdramanna með uppvakninga er mjög ýmislegur. Í fornöld virðist svo sem menn hafi einkum haft þá til að fregna um það er fram ætti að koma jafnvel þó nóg dæmi séu til þess að menn hafi einnig sent þá mótstöðumönnum sínum til meins. En á seinni öldum sýnist aðaltilgangurinn vera sá að senda þá til höfuðs öðrum og þaðan er sú þýðing lögð í sendingar að það séu uppvakningar sem öðrum eru sendir til ills. Þó áður sé talin nokkur tormerki á að fyrirkoma ungum draug og upprennandi eða fullmögnuðum hefur það þó ósjaldan tekizt, en oftast með nokkrum brellum með því að ginna þá inn í leggi eða glös, reka svo tappa fyrir framan og binda líknabelg yfir opið og snara síðan leggnum með öllu í eða glasinu í afvikinn stað, fen eða díki. Stundum hafa slíkir leggir fundizt aftur og fundarmaðurinn verið svo grunnhygginn að taka tappann úr svo að sendingin hefur orðið laus aftur og gjört þá enn margt til meins. Stundum hefur þeim þó verið fyrir komið þar sem bæði andríkir menn og fjölkunnugir hafa átt hlut að máli, í hellum eða gljúfrum. Þannig voru manni fyrir norðan sem Halldór hét Halldórsson sendir fjórir uppvakningar af öðrum manni í hefndaskyni. Halldór leitaði þá í þessum vandræðum sínum liðs til Sigurðar Sigurðssonar á Kollalæk í Borgarfirði er bæði var fjölkunnugur og skáld og kvað hann niður draugana í hellinn Víðgeymi sem er allnærri Surtshelli.

Ýms kvæði eru talin óbrigðul vörn gegn draugagangi og ásóknum illra anda og skal hér greina tvö dæmi til þess.