Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Stjúpusögur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Stjúpusögur
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Það er fljótséð þegar maður les ævintýri að þau greinast af sjálfsdáðum í fimm atriði. Fyrsta atriðið er yfirgripsmest og þær sögur einna tíðastar; en það eru stjúpusögur. Í þeim kemur víða fram tröllskapur bæði í líkamlegri og andlegri merkingu; því seinni konur kónganna eru flestar tröllauknar, stórskornar og svipillar mannætur þegar þær eru í essinu sínu, en gera sig að fögrum drottningum í tignarbúningi og þykjast nálega allar hafa misst kónga sína fyrir áhlaupi víkinga. Þegar einhver kóngur hefur svo glæpzt á þeim og gengið að eiga þær sannast það löngum að „oft er flagð undir fögru skinni“, því þá éta þær oft hirðmenn kóngs í muddum og kippir í því til tröllakynsins, og eru þau orðatiltæki jafnaðarlega höfð um það að hirðmennirnir hverfi. Þó er ekki þar með búið; því þær gerast stórráðar og skipa kóngum sínum burt úr ríkinu „að heimta skatta af löndum sínum“, eða ef kóngarnir fara sjálfir í þær eða aðrar erindagjörðir, en eiga börn eftir fyrri konuna heima, leggjast stjúpurnar jafnan á þau og annaðhvort stofna þeim í óhæfu eða leggja á þau að öðrum kosti og sýna í því andlegan tröllskap. En eftirtektavert er það að jafnan leggst börnum þessum eitthvað til að komast úr þeim háska eða ánauðum sem stjúpur þeirra hafa stofnað þeim í eða lagt á þau. Stundum eru kóngsbörnin svo andrík, eða hvað ég á að kalla það, að þau hefna sín á stjúpum sínum með því að leggja aftur á þær og verða þá ummæli þeirra allt eins að áhrínsorðum og ummæli stjúpanna, þó aldrei sjáist þess nokkur deili fyrr né síðar að börnin séu fjölkunnug. Stundum verða dvergar eða aðrar bjargvættir börnunum að liði og koma þeim úr kröggum þeirra. Auk þessa vill kóngsbörnum það einatt til að þau eiga kostgripi sem hafa þá og þá náttúru, og þeim gripum er það oft að þakka að þau komast úr nauðum þeim sem þau eru stödd í, en þó einnig öðrum atvikum og snjallræði sjálfra þeirra.